139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2009 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

545. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 86/2009, um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn um neytendavernd.

Það mál sem hér er um að ræða hefur að markmiði að samræma reglur á innri markaðnum hvað varðar vernd neytenda á tilteknum sviðum hennar auk þess sem gildissvið þessarar tilskipunar er víkkað út frá því sem áður var.

Hér er um að ræða tiltekna skiptileigusamninga svokallaða, samninga um orlofskosti til langs tíma, endursölu- og skiptasamninga. Gildissvið þessarar tilskipunar er útvíkkað þannig að það nái til samninga til eins árs eða lengur, en það er breyting frá því sem nú er þar sem þessar reglur gilda um samninga sem eru til þriggja ára hið minnsta.

Allir viðstaddir fulltrúar úr utanríkismálanefnd sem voru á fundi nefndarinnar þegar þetta var til umfjöllunar mæla með samþykkt frumvarpsins og rita undir nefndarálitið.

Mig langar samt, virðulegi forseti, að segja örfá orð vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið um EES-málin almennt í dag og sjónarmiða sem hafa komið fram um að nú séu breyttir tímar og verið sé að taka til umfjöllunar miklu fleiri EES-mál en gerst hefur á undanförnum árum. Ég hef undir höndum samantekt um þinglega meðferð EES-mála frá upphafi frá vetrinum 1993–1994. Það er þannig að á þeim tíma hafa verið teknar af hálfu sameiginlegu EES-nefndarinnar 209 ákvarðanir með svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara.

Fyrstu árin eftir að EES-samningurinn tók gildi voru þetta tiltölulega fá mál en það helgast meðal annars af því að í sjálfum EES-samningnum, sem var hér til umfjöllunar veturinn 1994–1995, voru um 483 EES-gerðir á einu bretti teknar inn. Síðan þá og fyrstu árin þar á eftir voru þetta tiltölulega fáar gerðir, fjórar, fimm á hverjum vetri, en frá 1999–2000 hafa þetta yfirleitt verið á annan eða þriðja tuginn á hverju ári, til að mynda veturinn 2002–2003 um 20, 2004–2005 27, reyndar 2007–2008 93 og á þessu þingi um 30.

Það er rétt að geta þess líka að þingsályktunartillögur og frumvörp sem hér hafa verið lögð fram frá upphafi, þar sem verið er að leiða tilteknar EES-gerðir í lög, hafa verið ríflega 300. Á þessu þingi eru 19 þingsályktunartillögur og 9 frumvörp en mest var þetta þó veturinn 2002–2003 þegar þingsályktunartillögurnar voru 19 og frumvörpin 26. Þess ber þó að geta að í sumum tilvikum hafa EES-reglur verið innleiddar inni í öðrum lagafrumvörpum sem ekki hafa sérstaklega verið EES-mál, EES-þingsályktunartillögur eða EES-frumvörp. Þegar á heildina er litið er ekkert sérstaklega mikill fjöldi af þessum málum til umfjöllunar á þessu þingi umfram það sem gjarnan hefur verið. Mesti fjöldinn var á þinginu 2002–2003 sem helgaðist af því að þá var tekin ákvörðun um það, meðal annars af þáverandi utanríkisráðherra, Halldóri Ásgrímssyni, að gera gangskör að því að taka þessi mál inn í þingið til umfjöllunar. Síðan dalaði það aðeins.

Nú höfum við til dæmis sett nýjar reglur um þinglega meðferð EES-mála sem gera kröfu um það að öll þessi mál komi inn í þingið þannig að í kjölfar þeirra er í sjálfu sér eðlilegt að þessi málafjöldi verði eitthvað meiri en þegar þessi tölfræði er skoðuð kemur í ljós að í raun er ekki innstæða fyrir þeim fullyrðingum að nú sé eitthvert sérstakt átak umfram það sem tilefni er til og þá má hafa í huga að eftir hrunið varð ládeyða í þessum málum einfaldlega vegna þess að þingið og framkvæmdarvaldið var upptekið í öðrum málum og þau voru látin bíða.

Ég vildi bara, vegna orða sem fallið hafa í umræðum í dag, láta þessar upplýsingar koma fram, sem ég hef fengið í hendur, og aðrir þingmenn geta að sjálfsögðu fengið upplýsingar um og þetta yfirlit.

Virðulegur forseti. Aftur að því máli sem hér er til umfjöllunar. Utanríkismálanefnd leggur sem sagt til að þessi þingsályktunartillaga, um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 86/2009, um neytendavernd, á þskj. 915, verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Valgerður Bjarnadóttir.