139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[15:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Já, þetta er merkilegur dagur í sögu þingsins og í sögu réttindabaráttu fatlaðs fólks og ekki síst í sögu íslenskrar tungu. Það eru þeir merkir bautasteinar í þessu máli, annars vegar erum við að lögfesta þjóðtungu okkar Íslendinga, íslenskuna, og hins vegar að undirstrika að táknmál er lögbundið og það á rétt á sér eins og íslenskan.

Ég vil taka undir það sem aðrir hafa sagt hér: Nú er það líka verkefni okkar þingmanna, hvort sem er í fjárlaganefnd eða annars staðar, að tryggja að efndir fylgi þessum góðu orðum. Það er gott að fara inn í helgina með þetta mál, það er gott að fara inn í sumarið og gott að fara inn í framtíðina með það. Að mínu mati er þetta mál sem ryður burt þröskuldum og þetta eykur umburðarlyndi og framsýni í samfélaginu. Eða eins og segir í góðu kvæði: Til hamingju, Ísland.