139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

skýrsla um endurreisn bankanna.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra verður að fara að horfast í augu við að það blasir við fólkinu í landinu að samningarnir um endurreisn bankanna voru fyrst og fremst hagstæðir fyrir kröfuhafana. Ráðherrann nefnir ríkissjóð sérstaklega. Skýrslan ber það ekki með sér, skýrslan ber það þvert á móti með sér að ríkissjóður hafi þurft að fjármagna bankana upp á tugi, ef ekki hundruð milljarða umfram það sem við höfum áttað okkur á.

Það sem fólkið í landinu var að kalla eftir var að fá nýtt bankakerfi sem mundi standa með því og það er líka það sem fyrirtækin óskuðu eftir. Það er það sem ekki hefur gerst. Þess vegna er óánægjan til staðar, þess vegna er fjármálaráðherrann á algerum villigötum þegar hann tyggur alltaf sömu tugguna um að þetta sé ágætt allt saman fyrir ríkissjóð. Við erum í þessu fyrir fólkið í landinu og fólkið í landinu kýs ekki Fjármálaeftirlitið. Það þýðir ekkert að vísa ábyrgðinni þangað. Fólkið kallar eftir því að ráðherrarnir beri sjálfir ábyrgð á sínum málaflokkum.