139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

skýrsla um endurreisn bankanna.

[10:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Formaður Sjálfstæðisflokksins ætlast væntanlega til þess að lög í landinu séu virt, m.a. lög sem voru sett af hans eigin ríkisstjórn. Lögin fólu Fjármálaeftirlitinu valdið til að ráðstafa eignum bankanna en ekki ríkisstjórn. Hv. þingmenn verða að átta sig á þessu. (Gripið fram í.)

Ég fagna því sérstaklega að við fáum að ræða þessa skýrslu, og helst ítarlega. Ég hef fullan hug á því að bera til baka og leiðrétta þær ótrúlegu rangfærslur sem vaðið hafa upp í þessari umræðu. Ævintýralegar rangfærslur sem að mínu mati eru ekkert annað en loddaraskapur gagnvart fólki sem glímir við skuldir sínar. (Gripið fram í.) Það sjá allir menn að það heldur ekki vatni að halda því fram að við hefðum getað staðið að tilfærslum fjármuna með einhverjum stjórnvaldsákvörðunum ef þær hefðu ekki verið á grundvelli samkomulags. Það hefði aldrei staðist fyrir dómi. Afleiðingin hefði orðið langvinn málaferli og deilur sem hefðu lamað íslenskt hagkerfi. (Gripið fram í.) Þess vegna var það einmitt mjög mikilvægt að það tókst að ljúka þessari stóru og flóknu aðgerð með samningum. Annars hefði hún tafist (Forseti hringir.) missirum eða árum saman til stórkostlegs tjóns fyrir íslenskt hagkerfi. [Kliður í þingsal.]