139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

gjaldeyrishöft og fjármál ríkissjóðs.

[10:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er í þeim leik að reyna að endurskrifa söguna, bæði í því máli sem við ræddum hér og ekki síður í því sem hann hefur haft yfirumsjón með síðustu rúmu tvö árin, hinu svokallaða Icesave-máli. Nú er svo komið að hæstv. ráðherra kemur fram í fjölmiðlum og segist ekki sjá eftir neinu í því máli. Hann bætir enn frekar í og segir að jafnvel værum við í betri málum ef við hefðum samþykkt Svavarssamningana á sínum tíma.

Hæstv. fjármálaráðherra er að gera hið ótrúlega. Hann virðist ætla að ná að toppa sjálfa Samfylkinguna í endurskrift sögunnar, stjórnmálaflokkinn sem kannast ekki við að hafa verið í ríkisstjórn á árunum 2007–2009.

Nú skulum við rifja upp hina glæsilegu Svavarssamninga sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti á sínum tíma. Ef við hefðum samþykkt þá hefði vaxtabyrðin árið 2009 verið 37 milljarðar, 37 milljarðar árið 2010 og rúmlega 30 milljarðar fram að 1. nóvember á þessu ári þegar gert er ráð fyrir að einhverjar heimtur komi úr þessu búi. 37 milljarðar eru engar smáupphæðir. Það er allur rekstur Landspítalans á einu ári sem er upp á 33 milljarða (Gripið fram í: Þú reddaðir þessu.) og allur rekstur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem er 4 milljarðar. Það eru 37 milljarðar á einu ári. Þarna vinna þúsundir einstaklinga sem hafa atvinnu af því að veita undirstöðuvelferðarþjónustu í landinu, fólk sem fær laun og greiðir skatta sína og skyldur og neytir þjónustunnar í landinu. Síðan kemur hæstv. ráðherra og gumar af því að við hefðum staðið betur ef við hefðum samþykkt Svavarssamningana. Það er ekki hægt að sitja undir málflutningi sem þessum. Þetta er sögufölsun og ekkert annað og hæstv. ráðherra ætti að hafa vit á því að ræða ekki þá hörmulegu samninga sem hann lagði á borð fyrir okkur alþingismenn á sínum tíma. Þeir voru hneyksli (Forseti hringir.) og ef við hefðum samþykkt þá hefðum við ekki getað staðið undir þeirri velferðarþjónustu sem þó er enn til staðar í landinu. (Gripið fram í.)