139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

Íbúðalánasjóður.

[10:59]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það sem vekur auðvitað mesta athygli í þeirri ákvörðun sem Landsbankinn tók fyrir helgina er sá rökstuðningur sem fyrir henni var gefinn, sá að það skipti máli fyrir framtíðarhagsmuni bankans að viðskiptamenn hans fengju úrlausnir sinna mála þannig að þeir gætu í framtíðinni orðið betri viðskiptavinir en ella hefði verið.

Það gildir nákvæmlega sama þegar kemur að þeim stóra stabba Íslendinga sem eru skuldarar hjá Íbúðalánasjóði. Það hvílir á okkur hér töluvert mikil skylda þegar að honum kemur og það gilda nákvæmlega sömu lögmál þar, hann er líka þátttakandi á markaði.

Ég veit til þess að í félagsmálanefnd eru núna til umfjöllunar frekari fjárveitingar til Íbúðalánasjóðs. Mig langar að spyrja hæstv. velferðarráðherra hvort hann viti í hvað þeir fjármunir eigi að fara. Hver er nákvæmlega staðan á rekstri Íbúðalánasjóðs? Þeir fjármunir sem við höfum ráðstafað til hans hafa fyrst og fremst verið rökstuddir þannig að það þurfi að bæta eiginfjárhlutfall sjóðsins en við þurfum að líta líka til þessarar hliðar. Ég hvet hæstv. velferðarráðherra (Forseti hringir.) eindregið til að líta á Íbúðalánasjóð sem eitt tól á markaðnum sem á að gagnast skuldurum og íslenskum heimilum sem best.