139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

ávísuð lyf til fíkla.

[11:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Undanfarin kvöld höfum við verið minnt á dökka hlið í samfélagi okkar og kannski dekkstu hliðina, með Kastljóssþáttum og lýsingum Jóhannesar Kr. Kristjánssonar fréttamanns sem við þökkum fyrir. Hér á ég við umræðuna um læknadópið sem að sögn kunnugra hefur stóraukist á liðnum árum.

Virðulegi forseti. Það er sagt að Íslendingar eigi heimsmet í notkun á ritalíni og hefur notkun þess stóraukist eftir hrun. Sölutölur staðfesta það og þetta er orðið gríðarlegt vandamál. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir lítið benda til annars en að allt þetta magn komi úr heilbrigðisgeiranum, þ.e. að þessu sé ekki smyglað til landsins. Sölutölur í læknagrunnum staðfesta það.

DV segir frá því í dag að dæmi sé um að einn læknir hafi skrifað upp á 24 þúsund morfíntöflur á þriggja ára tímabili fyrir sjúkling sem fékk þar að auki 4 þúsund aðrar töflur á ári, oft 200–300 töflur á mánuði. Virðulegi forseti, morfíntöflurnar, við fljótlegan útreikning, verða 650 á mánuði. Ófremdarástand, sagði rannsóknarlögreglumaður árið 2007. Já, það var árið 2007. Miðað við ofanritað virðist mér að ekki hafi tekist að spyrna við fótum hvað þetta varðar, enn eru brotalamir í þessu kerfi. Þórarinn segir líka að í könnunum þeirra og í gagnagrunni landlæknis hafi komið í ljós að fáir læknar séu að ávísa gríðarlegu magni af ritalíni eins og ég hef hér getið um.

Þetta er grafalvarlegt mál og ég sagði eitt það dekksta sem við er að fást. Það verður okkur ljóst eftir að hafa setið sem límd við sjónvarpstækin og horft á Kastljóssþættina og lesið í fjölmiðlum það sem hefur komið á eftir. Ég vil því nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. velferðarráðherra: Hvað hyggst velferðarráðuneytið og hann sem ráðherra gera? Hvað eigum við hér á (Forseti hringir.) Íslandi að gera og það strax vegna þess að málið þolir ekki bið?