139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

ávísuð lyf til fíkla.

[11:04]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það er hárrétt hjá fyrirspyrjanda að um er að ræða grafalvarlegt mál. Ég vil líka þakka fyrir umfjöllun fjölmiðla og það kastljós sem þeir setja á þetta sérstaka vandamál og þær dökku hliðar samfélagsins sem í því birtast. Hv. fyrirspyrjandi segir að það sé augljóst að enn séu þarna brotalamir og það er rétt, þetta er ekki nýtt vandamál, þetta hefur verið viðvarandi í langan tíma, gengur alltaf í bylgjum og toppar koma af og til. En það er rétt að við þurfum að taka á því og ná viðeigandi árangri.

Ég hef sagt að málið snúist fyrst og fremst um að grípa til aðgerða og nýta okkur þann lyfjagagnagrunn sem er fyrir hendi. Til að stöðva heimildir til ákveðinna einstaklinga til að fá ákveðin lyf — það er hægt að fylgjast með því — þarf að opna þessa lyfjagagnagrunna þannig að læknar geti fylgst með hvort annar læknir hafi ávísað lyfjum. Það þarf að gera. Hins vegar þarf að sjálfsögðu að taka á þeim læknum sem misnota lyfjaávísanir, sem gefa út lyf ótæpilega og ég held að það þurfi að vera alveg skýr skilaboð.

Ég mun eiga fund með landlækni í dag þar sem við ræðum þetta og hvernig hægt sé að grípa strax inn í það. Sjálfur hef ég séð fyrir mér að þarna væri með einhverjum hætti vaktkerfi þar sem hreinlega væri hægt að grípa strax inn í um leið og menn sjá að einhver frávik verða umfram einhver ákveðin tiltekin mörk.

Nú er það þannig að sumir af læknunum sem eru að ávísa á lyf eru ekki undir rafrænu kerfunum, það þarf líka að tryggja það. Það hafa verið sérgreinalæknar sem hafa verið utan við kerfið og skila ekki allir sömu upplýsingum. Þá fer það í gegnum Sjúkratryggingastofnun sem er aðeins lengra ferli. Þetta þurfum við allt að laga og það verður verkefnið í framhaldi af þessari umræðu.

Samtímis er full ástæða til að vekja athygli á því að þessi blettur verður ekki afmáður af heilbrigðisráðuneytinu eða velferðarráðuneytinu eða af landlækni, það þarf alla þjóðina til að vinna gegn þeim (Forseti hringir.) ósóma sem fíkniefnaneyslan er. Við þurfum að fara í forvarnavinnu sem heild, öll þjóðin.