139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

ávísuð lyf til fíkla.

[11:06]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir þetta svar um leið og ég brýni hann til aðgerða hvað þetta varðar. Ég mun líka óska eftir því að þetta verði rætt í heilbrigðisnefnd og landlæknir og aðrir kallaðir þar til. Þetta var rætt lítils háttar í síðustu viku undir öðrum lið og þá kom í ljós að hægt er að grípa til aðgerða strax.

Hæstv. velferðarráðherra vitnar hér í lyfjagrunninn sem er frá 2003. Þar var eftirlit með ávísun lyfja til fíkla hert. En það er þannig með þann lyfjagrunn að hann uppfærist aðeins á tveggja vikna fresti. Fyrrverandi landlæknir hefur sagt að fara þurfi yfir hverja einustu lyfjaávísun á hverjum degi og skoða hvort margir læknar eru að skrifa út til sama einstaklings — það þurfum við að gera daglega — og vitnar hann til annarra landa á Norðurlöndum og sérstaklega Danmerkur.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) „Fyrsta skref í átt að bata er að viðurkenna vanmátt okkar og leita nýrra leiða. Kerfið virkar ekki sem skyldi og nú er kominn tími til breytinga“, sagði Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir blaðamaður í leiðara DV í dag. Ég held að við eigum að gera þau skrif og baráttu Jóhannesar Kr. Kristjánssonar blaðamanns að okkar og hefjast handa (Forseti hringir.) sem fyrst og kippa þessum málum í liðinn.