139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:22]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Áður en hægt er að taka afstöðu til beiðni hæstv. forseta um að hér verði blásið til kvöldfunda vegna þeirra mála sem eru á dagskrá þingsins er nauðsynlegt að þingið sé upplýst um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar og yfirstjórnar þingsins varðandi þau frumvörp sem fela í sér grundvallarbreytingar á löggjöf um okkar mikilvægustu atvinnugrein. Áður en slík heimild er veitt verða menn að fá upplýsingar um það hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir í málinu. Er stefnt að því að frumvörpin verði gerð að lögum á þessu þingi? Eða er það rétt að hæstv. forsætisráðherra ætli að beita hér þvingunum til að koma á sumarþingi og jafnvel senda hæstv. forseta í sumarfrí meðan á því þingi stendur sýni hún einhvern mótþróa (Forseti hringir.) gagnvart þessum áformum? Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að þingið verði upplýst um þessar fyrirætlanir áður en atkvæðagreiðslan (Forseti hringir.) fer fram.