139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég lýsi eindregnum stuðningi við tillögu forseta og spyr hvort það sé til of mikils mælst að fulltrúar stjórnarandstöðunnar haldi hér sömu skoðun fyrir og eftir helgi. Í síðustu viku kölluðu þeir eftir því að efnt yrði sérstaklega til opinna funda og umræðna í heyranda hljóði um þau frumvörp sem eru loksins á dagskránni í dag. Ég hefði haldið að það væri þá fagnaðarefni fyrir stjórnarandstöðuna að þau væru á dagskrá og að hér gæfist mönnum færi á því, jafnvel fram á kvöldið, að ræða þau í heyranda hljóði og sé full ástæða til.

Auðvitað geta menn haft efasemdir um að unnt verði að afgreiða málin fyrir sumarleyfi en það er hægt að ljúka 1. umr. og koma þessum mikilvægu málum til nefndar þannig að nýta megi sumarið til að kalla eftir athugasemdum, athugunum og sjónarmiðum utan úr samfélaginu. Það að ætla að neita því að koma málunum til málefnalegrar meðferðar er í besta falli meinbægni af hálfu stjórnarandstöðunnar en í versta falli hagsmunagæsla dauðans fyrir (Forseti hringir.) kvótaeigendur.