139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég minni hv. þm. Helga Hjörvar á að okkar hlutverk er að gæta hagsmuna þjóðarinnar og ég hélt að það væri þokkaleg sátt um að til þess að gera það skyldi vandað til verka, sérstaklega í stærri málum. Þess vegna komum við á ákveðinni reglu sem gengur út á að 1. apríl skuli frumvörp liggja fyrir, sérstaklega í stórum málum.

Virðulegi forseti. Hvaða dagur er í dag? (Gripið fram í: Mánudagur.) Það er 30. apríl. (Gripið fram í: Maí.) [Hlátur í þingsal.] 30. maí. Sjö virkir þingdagar eru eftir. Það hefur komið alveg skýrt fram hjá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. framkvæmdarvaldinu að jafnvel verði farnar óhefðbundnar leiðir til að keyra þetta mál í gegn svo ekki sé dýpra í árinni tekið. (Forseti hringir.) Ég hvet menn sem eru búnir að hafa mörg orð um að það skipti máli að vanda til verka að draga (Forseti hringir.) aðeins andann djúpt og hugsa málið áður en allt verður keyrt hér í gegn á ógnarhraða.