139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:29]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég styð að sjálfsögðu tillögu um að þingfundur geti verið lengri í kvöld en venja stendur til. Það er löng hefð fyrir því á Alþingi að á síðustu þingfundadögum á vorþingi sé fundað eilítið fram á kvöldið og stundum fram í bjarta nóttina og að fundir hefjist klukkan hálfellefu á morgnana enda sé nefndafundum að mestu lokið. Það er ekkert óvenjulegt við þá ráðstöfun.

Ég hefði haldið, frú forseti, að það væri þingmönnum almennt kappsmál að taka til umræðu þau frumvörp sem eru á dagskrá, ræða þau og taka til þinglegrar og lýðræðislegrar meðferðar á hinu háa Alþingi. Ég mælist til að við gerum það hér í dag.