139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er vanur því í gegnum tíðina að við höfum stundum fundað lengi í lok þings undir vorið en ég verð samt að segja eins og er að mér hnykkti nokkuð við þegar hv. formaður þingflokks VG sagði að við yrðum að vera undir það búin að þingfundir stæðu að mestu leyti fram til 9. júní nk. (Gripið fram í.) Spurning mín til hv. þingmanns er því svona: Er mögulegt að fara fram á það til dæmis að ekki verði fundur á sjómannadaginn þegar þessi mál eiga að vera til umræðu? Er verið að boða okkur það hér, að það eigi að fara að setja einhverja slíka pressu á þingið? (Gripið fram í: Á laugardögum.)

Málið er að það er alveg rétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði áðan. (Gripið fram í: … Steingrímur.) Við fórum fram á það, minni hlutinn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, að þessi mál sem á að fara að taka til umræðu yrðu rædd á opnum fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Við töldum það meðal annars mjög mikilvægt til að upplýsa það mál sem á núna að fara að ræða vegna þess að það er mjög óljóst fyrir margra hluta sakir. Þá gerðist það að settir voru á miklir tafaleikir til þess greinilega að koma í veg fyrir að umræðan gæti farið fram. Það tókst að lokum og niðurstaðan varð sú, eins og við öll vitum, að þessi opni fundur verður ekki fyrr en einhvern tímann síðar meir.

Ég vil vekja athygli á því sem hefur komið hérna fram, að núna eru liðnir tveir mánuðir frá lokum hins lögbundna frests sem þingsköp kveða á um til að leggja fram mál sem megi taka til umræðu án þess að leita sérstakra afbrigða. Það er ekki góður bragur á því (Forseti hringir.) þegar um er að ræða eins mikið mál og þetta að það sé tekið til umræðu á grundvelli afbrigða.