139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í tilefni af því að hér er búið að koma oft inn á að það sé alvanalegt að fundað sé fram á kvöld undir lok þings langar mig að rifja það upp að það er ekki langt um liðið síðan komið var á sérstöku haustþingi til að koma í veg fyrir að við værum að funda langt fram á sumar. Þingið er að störfum að jafnaði lengur í dag en áður tíðkaðist, langt inn í júní.

Eins og ég vék að í mínu fyrra máli erum við líka undir hótunum frá forsætisráðherra um að boðað verði til sérstaks sumarþings og þegar þetta raðast allt saman er ekki við því að búast að af hálfu stjórnarandstöðunnar sé mikill samstarfsvilji. Menn hafa ekki einu sinni hugmynd um hvað vakir fyrir stjórnarliðunum, forustumönnum ríkisstjórnarinnar. Þeir hafa til dæmis ekki tekið af skarið um að full alvara sé að baki því að gera bæði þingmálin að lögum. Getum við kannski byrjað á því að fá (Forseti hringir.) svar við einfaldri spurningu: Stendur til að gera þessi þingmál að lögum eða ekki? (Gripið fram í.)