139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri mjög góð hugmynd að forustumenn stjórnarliðsins — það væri ágætt að fá að vita líka hverjir stýra þessu þingi, hvort það sé framkvæmdarvaldið eða þeir aðilar sem við höfum kosið til þess — mundu útskýra fyrir okkur fyrirætlanir sínar. Hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur borið fram mjög málefnalegar og eðlilegar spurningar og ég vek athygli á því að það er búið að ræða hér hvað eftir annað um mikilvægi þess að vanda til verka, mikilvægi þess að þingið vandi sérstaklega til lagasetningar. Það er búið að brjóta alla tímafresti þannig að það er algjörlega fáheyrt að menn komi inn með slík risamál og ætli að afgreiða þau á þessum örskamma tíma eins og ætla má miðað við viðbrögð meiri hlutans. Ég held, virðulegi forseti, að það væri (Forseti hringir.) fantagóð hugmynd að fá upplýsingar um hvað vakir fyrir stjórnarliðum.