139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er þetta erfitt. Þegar um takmarkaða auðlind að ræða og henni ætlað svona stórt hlutverk í að standa að baki samfélagi okkar verður náttúrlega að horfa til þessa heildstætt.

Ef við horfum aðeins til þess hvað hefur verið gert á undanförnum árum hefur þróunin ekki verið sú að heildstætt tillit hafi verið tekið til sjávarbyggðanna. Það sem við erum að segja hér er að við getum ekki látið lögmál markaðarins eða hendingarinnar ráða um það hvernig einstakar sjávarbyggðir verða úti. Almenningur þar á alveg sama rétt, ekki síðri, jafnvel meiri rétt en þeir sem eru að höndla með aflaheimildir. Almenningur hefur verið þarna réttlaus og horft á aflaheimildir fara. Það getur engum fundist sanngjarnt. Það er þetta sem við viljum leggja áherslu á í þessu litla frumvarpi og reyndar í stefnu (Forseti hringir.) til lengri tíma.

Varðandi veiðigjaldið kem ég að (Forseti hringir.) því í seinna andsvari, herra forseti.