139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessi mál eru afgreidd úr ríkisstjórn og úr þingflokkum og þá afgreidd til þingsins þannig að nú ber þingið ábyrgð á framvindunni. Nýtt fiskveiðiár hefst 1. september næstkomandi og lýkur 31. ágúst á næsta ári. Til að koma breytingum hvað það varðar þarf Alþingi að samþykkja þær á allra næstu dögum. Ég tel alveg ljóst að stóra meginmálið verði ekki afgreitt til þess að koma til framkvæmda 1. september, meira að segja þó að það yrði afgreitt sem lög á allra næstu dögum, því að það þarf heilmikinn undirbúning (Forseti hringir.) til að koma því til framkvæmda.

Þess vegna er lögð áhersla á að þótt gildistakan geti orðið fyrr koma breytingarnar í megindráttum ekki til framkvæmda fyrr en (Forseti hringir.) 1. september 2012, með nýju fiskveiðiári. Þess vegna er þetta frumvarp flutt (Forseti hringir.) til að taka á málum núna í ár og á næsta ári.