139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir gagnlega umsögn fjármálaráðuneytisins um það frumvarp sem hér liggur fyrir og þá skrýtnu hugmynd sem þar er að finna um að hluta af tekjum ríkissjóðs eigi að ráðstafa sérstaklega til ákveðinna Íslendinga en ekki annarra Íslendinga með vísun til þess að það sé til byggðanna. Þó er í tillögunni um leið sneitt skipulega hjá langstærstu byggðinni í landinu, höfuðborgarsvæðinu. Er þó löng hefð fyrir útgerð í Reykjavík og Hafnarfirði.

Ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann telji að við Reykvíkingar eigum minni hlut í auðlindum Íslands en aðrir landsmenn. Öðruvísi verður þetta frumvarp ekki skilið.