139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

fundarstjórn.

[15:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar fjármálaráðuneytið lýsir því yfir í umsögn sinni um þau frumvörp sem hér eru til umfjöllunar að frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stangist á við eða brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar má með góðum rökum halda því fram að slík yfirlýsing jafngildi yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra um að frumvarpið brjóti stjórnarskrá. Hann er æðsti yfirmaður fjármálaráðuneytisins. Þegar slík gögn berast frá fjármálaráðuneytinu eru þau á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra. Nú liggur fyrir að ráðuneyti hæstv. fjármálaráðherra hefur gefið umsögn sína um stjórnarskrárlegt gildi þessa frumvarps.

Þegar þingmenn setjast á þing undirrita þeir eið að stjórnarskránni þar sem þeir lýsa því yfir að þeir muni virða ákvæði (Forseti hringir.) hennar. Maður hlýtur að spyrja í ljósi þess hvort slík yfirlýsing hafi yfir höfuð eitthvert gildi ef það á að halda áfram að ræða þetta mál?