139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú gott að heyra hjá hv. þingmanni að grunnsjónarmiðin fara saman. Ég skal gjarnan taka þátt í því ef hv. þingmaður finnur leið til þess að þetta jafnist enn betur.

Varðandi síðan þetta með heimild til sveitarstjórna til að úthluta aflaheimildum til fiskiskipa þá er það fullkomlega valkvætt. Úthlutun byggðakvóta núna er svo sem kerfislega orðin í nokkuð góðu lagi, það er lítið um kærur, mér finnst það ganga allt of seint en það er svo aftur annað mál. Það er valkvætt að sveitarstjórnir geti úthlutað þessu en það er þá samkvæmt reglum sem í grunninn til eru þær sömu og eru við úthlutun byggðakvóta nú, þ.e. að þetta skuli fara á skip sem eru með heimahöfn á viðkomandi svæði, það skuli landa þar og fiskurinn skuli fara til vinnslu. Sveitarfélögin verða svo að senda þessar reglur til ráðuneytisins og fá þær staðfestar, en þetta er fullkomlega valkvætt.

Við heyrðum frá einu sveitarfélagi austur á landi sem gerði þetta með sínum hætti (Forseti hringir.) í sumar, þannig að hjá vissum sveitarfélögum getur verið áhugi á að gera þetta og þá finnst mér sjálfsagt að koma til móts við það, en það verður að fara að þeim reglum sem settar eru.