139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú í besta falli kímilegt að heyra hér hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sem sat aðgerðalítill í því ráðuneyti með sjávarútvegskerfi sem nær öll þjóðin var ósátt við, koma hér upp og barma sér yfir því að það hafi tekið níu mánuði að taka á þeim vandamálum sem hann skildi eftir í ráðuneytinu. En allt um það.

Sjónarmið hv. þingmanns um það að skatttekjur eigi að renna hlutfallslega eftir því hvar þær eiga uppruna sinn eru nokkuð athyglisverðar. Ég hlýt því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji þá að þetta eigi almennt um skatttekjur ríkissjóðs og hvort við hér í 101 Reykjavík megum þá vænta þeirrar hlutdeildar í virðisaukaskattstekjum sem á uppruna sinn hér í póstnúmerinu eða hvort þetta eigi bara við um þá tekjustofna ríkisins sem þjóna kjördæmahagsmunum hans sjálfs. Og sömuleiðis hvort þetta eru einkaskoðanir hans eða hvort það sé skoðun Sjálfstæðisflokksins hér í heild að Reykvíkingar eigi minni hlut í fiskimiðunum, (Forseti hringir.) hafi tekið minni þátt í þorskastríðunum eða eigi minni kröfu til þess að eiga hinar sameiginlegu tekjur af auðlindinni.