139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt svona í bjartsýniskasti mínu þegar hv. þingmaður bað um orðið að nú væri hann að taka til máls til að segja að hann væri innilega sammála mér að það væri eðlilegt að hafa samræmi í gjaldtöku á auðlindanýtingu í landinu. Hv. þingmaður gerði það ekki, kannski gerir hann það síðar.

Hv. þingmaður var að vísa til þess sem ég sagði áðan varðandi veiðigjaldið. Ég var í fyrsta lagi að vekja athygli á því að veiðigjaldið er í eðli sínu landsbyggðarskattur. Það leggst fyrst og fremst á atvinnugreinar sem starfræktar eru á landsbyggðinni, 90% af tekjuöfluninni í gegnum sjávarútveginn eiga sér stað á landsbyggðinni.

Ég var einfaldlega að víkja að því og vekja athygli á því sem m.a. prófessor Þóroddur Bjarnason hefur bent á, að mjög stór hluti af þeim skatttekjum sem eiga uppruna sinn á landsbyggðinni fer til ráðstöfunar utan landsbyggðarinnar og það er miklu meira en gengur og gerist annars staðar í landinu. Það var þetta sem ég var að vekja athygli á. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að útfærsla hæstv. ráðherra sé vandræðaleg í besta falli og geti ekki gengið (Forseti hringir.) og það var það sem ég var m.a. að gagnrýna.