139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér eru stórtíðindi að gerast. Hv. þingmaður er að segja okkur frá því að það sé sjálfsagt að hans mati að samræma gjaldtöku í auðlindanýtingunni og þá verður afleiðingin auðvitað þessi: Landsvirkjun borgar 6,6 milljarða, ef við notum sömu aðferð og hér er verið að leggja til, og Orkuveita Reykjavíkur 1,1–1,2 milljarða kr. Við skulum bara halda því til haga að þá liggur þetta fyrir.

Hv. þingmaður hefur hins vegar haldið mýmargar ræður og félagar hans um að það sé ósanngjarnt að þar sem t.d. meiri hluti tekna í gegnum olíugjald og þess háttar komi fram á höfuðborgarsvæðinu fari ekki meira af útgjöldum til vegamála til höfuðborgarsvæðisins.

Varðandi strandveiðarnar var ég m.a. að vekja athygli á því himinhrópandi óréttlæti sem hæstv. ráðherra hefur staðið fyrir, og studdur m.a. af hv. þm. Helga Hjörvar í því sem situr í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, að úthluta veiðiréttinum í strandveiðunum með þeim hætti sem verið er að gera þar sem sumir fá að fara fimm daga á sjó, aðrir 22 og allt er þetta gert í nafni einhvers réttlætis (Forseti hringir.) sem á auðvitað ekki neitt skylt við réttlæti eins og allir sjá.