139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst til að fyrirbyggja misskilning er það ekki þannig að um sé að ræða ummæli formanns Farmanna- og fiskimannasambandsins. Hér er um að ræða afstöðu Farmanna- og fiskimannasambandsins sem kemur fram í ályktun þess.

Í sambandi við það hvort strandveiðar séu tómstundaveiðar skulum við bara velta einu fyrir okkur. Við hv. þingmaður búum bæði á því sem mundi kallast veiðisvæði A í strandveiðikerfinu. Þar fengu menn að veiða í þessum mánuði í fimm daga. Er það full atvinna að vinna fimm daga í mánuði eða er það einhvers konar hlutastarf? Er það tómstundastarf? Ég ætla svo sem ekki að gefa þessu nein sérstök heiti að öðru leyti en því að ég tel að þetta sé fullkomlega óréttlátt og ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann hvort hv. þingmaður, sem er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, sé sátt við þessa skiptingu á milli landshlutanna. Er hv. þingmaður ánægð með að segja fólkinu sínu á Suðureyri eða íbúum Bolungarvíkur eða Ísafjarðar eða Patreksfjarðar eða Snæfellsbæjar að það sé bara nóg fyrir þá að fara á sjóinn fimm daga í mánuði þegar aðrir mega róa þar 22 daga?