139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það eru svo sem fleiri sem hafa haft þá skoðun uppi að það sé svigrúm til að auka aflann eftir að menn hafa skoðað það. Það er búið að kalla eftir niðurstöðu í sérstökum skoðunarhópi sem ráðherra setti á laggirnar til að skoða hvort það kæmi til greina að úthluta einhverju á yfirstandandi ári.

Sú spurning hlýtur hins vegar að vakna um leið og þetta er gert svona hvort þetta sé skynsamlegasta leiðin. Verður mestur arður til þjóðarinnar af þessu? Það eru þrír mánuðir eftir af fiskveiðiárinu, eru ekki flest fyrirtæki í þessum bransa búin að velta fyrir sér með hvaða hætti þurfi að veiða til þess að markaðssetja? Er ekki verðið lægra yfir þennan tíma, jafnvel varan ekki eins góð og í annan tíma? Væri ekki hreinlega skynsamlegra að veiða þennan þorsk í september, október og nóvember en að taka hann núna á sumarmánuðunum? Ef það er hægt, af hverju var þá ekki úthlutað fyrr og þá til þeirra sem eru í atvinnugreininni í dag?