139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Það er eitt sem mig langar að spyrja hann um og það er í sambandi við vinnubrögð. Hann kom inn á það í upphafi ræðu sinnar að einungis sjö þingdagar væru eftir. Hv. þingmaður á sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og því spyr ég hann: Telur hann mögulegt að viðhafa vönduð vinnubrögð með því að afgreiða frumvarpið með þessum fyrirvara, að senda málið til umsagnar og afgreiða málið hugsanlega á þessu þingi, sérstaklega í ljósi þeirra alvarlegu athugasemda sem koma fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins?

Hv. þingmaður átti líka sæti í þingmannanefndinni sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Eins og hann vakti athygli á kom orðið ráðherra fyrir einum níu sinnum í aðeins einni grein. Er það í samræmi við þá niðurstöðu sem var samþykkt hér af öllum hv. þingmönnum, með 63 greiddum atkvæðum, að styrkja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu? Finnst honum þau spor sem þarna eru mörkuð vera í þá átt?