139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:18]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt og ég hlustaði með athygli á alla ræðu hans áðan þá sagði hv. þingmaður orðrétt: Hver er hvatinn? Af hverju þarf að breyta? Ef ég skildi svar hans áðan við mínu andsvari rétt var hann þeirrar skoðunar að breytinga væri þörf enda væru framsóknarmenn í undirbúningi með mál til þingsins hvað það varðar.

Tillögur Framsóknarflokksins, eins og þær voru samþykktar á nýafstöðnu flokksþingi framsóknarmanna, ganga að mörgu leyti talsvert lengra en í frumvarpi því sem við fjöllum um í dag. Þær eru t.d. með fjögurra þrepa pottakerfi þar sem efnislega er verið að fara svipaðar leiðir og í því frumvarpi sem við erum að ræða núna en þó er gengið lengra og dýpra þannig að ég geri ráð fyrir því að þingmaðurinn sé þeirrar skoðunar að breyta þurfi því stjórnkerfi fiskveiða sem við höfum búið við og ganga þurfi lengra en það frumvarp sem hér um ræðir býður.