139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er það rödd LÍÚ? Mér heyrðist þingmaðurinn vera að lesa upp tölur sem eru sambærilegar við þann hluta þjóðarinnar sem vill losna við ríkisstjórnina. Ætlar þá ríkisstjórnin að segja af sér? Sambærileg tala líka og það hlutfall sem vill ekki vera í Evrópusambandsviðræðum. Ætlar þá hv. þingmaður að beita sér fyrir því að þeim verði slitið? (LRM: Ég er að spyrja þig.) Þetta er alveg með ólíkindum.

Ég held að hv. þingmaður hafi ekki hlustað á ræðu mína og hafi gaman af því að snúa út úr vegna þess að í ræðu minni fjallaði ég ekki um að ekki væri nauðsynlegt að gera neinar breytingar. Ég sagði einfaldlega að allir en ekki ýmsir hagsmunaaðilar í greininni væru sammála um að þessi frumvörp væru það slæm að betra væri að sleppa þeim en reyna að vinna með þau í þinginu og koma þeim í gegn. Það varð niðurstaðan. Ég benti á að stysta útgáfan sem ég gæti komið með væri að lesa upp samþykkt okkar framsóknarmanna á flokksþinginu um nýja sjávarútvegsstefnu því að hún er miklu betri leið til breytinga á kerfinu sem við framsóknarmenn töldum að þyrfti að gera (Forseti hringir.) og ég stóð að sjálfsögðu að sem formaður þess hóps sem það gerði.