139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að það fór aðeins um mig þegar hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, ýjaði að því að sá vísindalegi grunnur sem við byggjum fiskveiðiráðgjöf okkar á virki ekki. Ég er alveg sannfærður um að það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum byggt upp er á réttri leið. Það hafa klárlega verið gerð mistök og stofn ofmetinn á ákveðnum tímum og veitt of mikið, en við erum á réttri leið. Og ef við lítum á hagstjórnarávinninginn þá er hann gríðarlegur.

Það var einfaldlega þannig þegar útgerðin var á hausnum ár eftir ár á 8. og 9. áratugnum að ríkið kom ekki eða neinir aðrir og keyptu út þá sem stóðu sig ekki í greininni heldur voru það þeir sem voru í greininni og eru þar enn sem keyptu hina út úr greininni af því að það vildi það enginn annar. (Forseti hringir.) Núna erum við orðin eins og litla gula hænan, nú ætla ýmsir að koma og taka það sem kemur út úr bakstrinum. (Forseti hringir.)

(Gripið fram í.) Það er bara útúrsnúningur.