139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er gaman að geta tekið þátt í henni þó að maður hafi verið farinn að örvænta um að málið kæmist á dagskrá eftir að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað í dag að hefja málþóf sitt á Alþingi þetta vorið með því að taka aftur og aftur til máls um fundarstjórn forseta og aðra sígilda liði sem menn taka upp til að tefja fyrir störfum þingsins eins og þjóðin þekkir. (Gripið fram í.) En það lýsir því kannski hversu hart og langt Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ganga í að verja með kjafti og klóm það vonda sérhagsmunakerfi sem þeir hafa staðið vörð um árum og áratugum saman í andstöðu við þorra þjóðarinnar.

Grundvallaratriði í kvótamálunum er að stærstur hluti þjóðarinnar krefst róttækra breytinga á því til að tryggja þjóðareign á auðlindinni, til að tryggja að almenningur njóti arðs af henni og allir Íslendingar fái tækifæri til að hasla sér völl í þessum grundvallaratvinnuvegi í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það tækifæri er núna og Alþingi á að hafa forustuna. Það er því fagnaðarefni að fá frumvörp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til umfjöllunar í þinginu og furðuleg sú umræða að þingið sé ekki í færum til að taka á þeim og að þau eigi ekki að komast á dagskrá og fara til nefndar vegna þess að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og Alþingi Íslendinga séu ekki í færum til þess á rúmlega þremur mánuðum að fjalla um málefni sem reifað hefur verið frá öllum hliðum í yfir aldarfjórðung og komast að niðurstöðu að hausti. Það er fjarri öllu lagi. Auðvitað er Alþingi fullfært um að gera það. Það er gleðilegt að nú er málið í höndum þingsins. (Gripið fram í: Í sjö daga.) — ekki í sjö daga heldur langt fram í september. Ég held að það hafi legið alveg fyrir um stóra málið að því er fyrst og fremst ætlað að komast til nefndar. Ég hygg að það séu aðeins sum ákvæði í þessu máli sem þurfa að verða að lögum fyrir 1. september, atriði eins og veiðigjaldið og kannski nokkur önnur. Um allar hinar stóru línur í þessum málum hefur þingið allt sumarið, rúmlega þrjá mánuði, til að kalla eftir viðbrögðum úr samfélaginu og helga sig verkefninu og kalla til alla sérfræðinga sem menn vilja. Það lýsir þeirri afstöðu Sjálfstæðisflokksins að hann vilji ekki vinna í málinu ef hann ætlar að hafna því að nota tækifærið sem næstu þrír mánuðir eru til að vinna í þessum stóru álitamálum og einbeita sér að þeim.

Ég hvet menn til að hugsa það aðeins því að þó að hér séu mjög sterkar skoðanir og ólíkar á sjávarútvegsmálum er ég sannfærður um að ef við vinnum okkar vinnu sem þjóðkjörnir fulltrúar þá getum við miðlað enn frekar málum og leitast við að skapa um þessa mikilvægu lagasetningu enn meiri sátt en nú þegar er þó að það verði auðvitað fyrst og fremst að vera í sátt við þjóðina sjálfa. Hingað til hefur það ráðið í meira en aldarfjórðung að sátt væri í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Sem betur fer er sá tími liðinn og kannski eðlilegt að þingmenn hans sprikli nokkuð í ræðustólnum þegar þeir þurfa að horfast í augu við það. Mikilvægast er að þetta sé gert í sátt við þjóðina sjálfa því að við vitum öll að það eru alvarlegir meinbugir á núverandi kerfi sem verður að taka á til að skapa sæmilegan frið um þessa grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar.

Um fyrra málið — við eigum kannski eftir að ræða seinna málið sérstaklega — vil ég nefna nokkur atriði. Fyrst held ég að það hafi verið framfaraspor að innleiða strandveiðarnar og hef ég ekki skilið þá miklu andstöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið á lofti í umræðum. Við höfum séð líf kvikna í sjávarbyggðum hringinn í kringum landið við þau tækifæri sem fjölmargir einstaklingar hafa fengið til sjálfstæðs atvinnureksturs og einkaframtaks í sjávarútvegi. Það er leitt að heyra strandveiðarnar talaðar niður af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins hér. Við hljótum þó áður en heimildir til strandveiða verða auknar að þurfa að fara yfir reynsluna. Þar er kannski tvennt sérstaklega sem ég held að nefndin þurfi að taka til athugunar. Það er annars vegar hvaða hópi þær hafa nýst, þ.e. hverjir hafa stundað þær og aflað sér tekna af þeim, og hins vegar sjónarmið sem hafa komið upp og lúta að gæðamálum og öryggismálum sjómanna. Ég held að það séu þættir sem þingið verði að gera mjög ríkar kröfur til.

Annað atriði sem nefndin hlýtur að skoða vel eru hugmyndirnar um úthlutun til sveitarfélaganna. Áhyggjur hafa verið af því að þetta væri ekki hentugt fyrirkomulag og gæti kallað á spillingu. Ég hef ekki þær miklu áhyggjur sem menn hafa haft. Ég held að í sjálfu sér séu sveitarfélögin í betri færum í nálægðinni til að taka þessar ákvarðanir en menn í 101 Reykjavík og það sé best að þær séu teknar sem næst vettvangi, en ég held að við eigum að vera opin fyrir öðrum hugmyndum eins og þeim fiskvinnsluhugmyndum sem framsóknarmenn hafa reifað og eins fyrir því hvort menn geti á jafnræðisgrundvelli á ákveðnum landsvæðum í fiskvinnslunni keppt um þessar heimildir. Ef það eru einhverjar leiðir til að hafa almennari og opnari jafnræðisreglur til að byggja grundvallarlögmál í markaðsbúskap á og sinna þessum mikilvægu byggðasjónarmiðum held ég að það sé ákjósanlegt og full ástæða til að skoða vel í nefndinni hvort af því megi verða.

Í andsvörum hef ég nokkuð vikið að ráðstöfuninni á þeim gjöldum sem hér er lögð til hækkun á. Gert er ráð fyrir að helmingurinn af hækkuninni renni ekki til þeirra rúmlega 200 þúsund Íslendinga sem búa á höfuðborgarsvæðinu og eiga alveg jafnmikið í fiskimiðunum í kringum landið og aðrir Íslendingar. Á þessu svæði hefur verið öflug útgerð í gegnum tíðina og það er sami erfðaréttur sem við Íslendingar allir gerum tilkall til — sögulegt tilkall í baráttu fyrir þeim auðlindum. Ég tel að það sé að segja í sundur friðinn að draga landshluta í sundur og espa hvern gegn öðrum með því að ætla að ákveða að sumar auðlindir eigi að vera meira í eigu sumra Íslendinga en annarra eða tekjur ríkissjóðs.

Ég held að álit fjármálaráðuneytisins, sem ég þakka hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni kærlega fyrir, eigi að vera skyldulesning fyrir þingmenn í ríkisfjármálum vegna þess að meginsjónarmiðið kemur fram í stjórnarskránni, þ.e. jafnræðið og að Alþingi hafi fjárveitingavaldið. Það reynum við að rækta með því að hafa tekjustofnana almenna og ráðstafa síðan tekjunum í fjárlögum á hverju ári og taka þá pólitísku umræðu hvar fjármuna sé þörf og leiða það til lykta, en ekki með því að merkja sumum hópum landsmanna tilteknar tekjur. Þá verðum við óðar komin út í að tekjur af bensínsölu á höfuðborgarsvæðinu megi bara fara í vegi á höfuðborgarsvæðinu en alls ekki í vegi í einhverjum ákveðnum póstnúmerum eða við verðum farin að deila um hverjir eigi virðisaukaskattstekjurnar o.s.frv. Ég held að það sé til ófarnaðar um leið og ég lýsi því yfir að ég hef ekkert á móti því að fjárhæðum, sem eru í námunda við það sem ætlað er að renni af þessu gjaldi til að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í byggðum sem á því þurfa að halda, verði varið til þess á fjárlögum. Auðvitað hafa allir landsmenn skilning á því að sumar byggðir um landið þurfa meiri stuðning en aðrar en ég held líka að við mörkun á tekjum renni þær til sjávarbyggðanna hringinn í kringum landið án tillits til þess hvort staðan þar er góð eða slæm, hvort þær byggðir þurfa stuðning eða ekki, hvort þar er öflugt og blómlegt starf eða ekki. En ég held að það væri ófarnaðarskref að merkja tekjurnar með þessum hætti og það stríði gegn góðri reglu í ríkisfjármálum.

Ég vil síðan taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og vek athygli á því að það er bráðabirgðaákvæði í stóra málinu svokallaða, IX. ákvæði hygg ég að það sé, um að hér starfi í sumar nefnd til að fara yfir skattlagningu á auðlindarentu. Þá er eðlilegt að horfa til allra þeirra greina sem byggja á auðlindum.

Í meðförum efnahags- og skattanefndar erum við núna með skattlagningu á olíuvinnslu. Þar er um að ræða tvenns konar skattlagningu. Annars vegar er 5% framleiðslugjald sem er kannski svipað veiðigjaldinu í sjávarútveginum en jafnframt er gert ráð fyrir því, eins og í skattlagningu á olíuvinnslu alls staðar í kringum okkur, að eftir því sem hagnaður verður stærri hluti af veltu fyrirtækis þeim mun hærri verði skattarnir vegna þess að auðlindarentan endurspeglast í því hvort hagnaðurinn verður mjög stórt hlutfall af veltunni. Ég held að það sé eðlilegt að svipuð grundvallarsjónarmið gildi í skattlagningu á annarri orkuiðju í landinu, í sjávarútvegi og á auðlindum almennt, og teldi farsælast að skatturinn rynni í auðlindasjóð sem væri sameign allra Íslendinga svipað og tekjur Norðmanna af olíulindunum renna í hinn fræga olíusjóð þeirra.

Það er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að settur verði á fót auðlindasjóður. Ég held að það væri mikilvægt skref í því að tryggja eign Íslendinga allra á auðlindunum og að við höfum öll arð af þeim auðlindum sem við eigum saman. Það má síðan hafa ýmsar skoðanir á því hvaða reiknireglur og aðferðir eigi að nota í hverri atvinnugrein því að atvinnugreinarnar eru ólíkar innbyrðis. Ég hygg að hlutfall af breytilegum kostnaði í sjávarútvegi til að mynda sé miklu hærra en í hinum tveimur auðlindagreinum sem ég nefndi. Í virkjunarstarfsemi og einkum í vatnsaflinu er náttúrlega langstærsti hlutinn fyrst og fremst afskriftir og fjármagnskostnaður en rekstrarkostnaður er tiltölulega lítill og eiginlega hverfandi sem hlutfall af þeim tekjum um ræðir þegar aftur á móti laun, veiðarfæri, olía og aðrir stórir breytilegir þættir eru í miklu stærra hlutfalli í sjávarútveginum. Ég er því ekki endilega viss um að sama reiknireglan eigi við um allar auðlindirnar en fyrst og fremst þurfum við að nálgast þessa auðlindarentu, þ.e. umframhagnaðinn sem er af nýtingu auðlinda sem við eigum öll og fá hann til almennings þannig að við getum skattlagt fólkið í landinu og venjuleg fyrirtæki, sem ekki búa að þeim forréttindum að nýta sameiginlegar auðlindir, eins lágt og kostur er til lengri tíma.