139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór sem mig grunaði, hv. þm. Helgi Hjörvar hefur ekki hundsvit á því sem hann er að tala um hérna og það er vandamálið í hnotskurn þegar rætt er um sjávarútvegsmál að fólk, sérstaklega í Samfylkingunni og sumum öðrum flokkum, hefur ekki hundsvit á því sem það er að tala um.

Þetta er í fyrsta skipti, virðulegi forseti, sem ég verð var við að hv. þingmaður hrósi kerfinu og fari yfir það að grundvallarmarkmið þess hafi náðst. Það er auðvitað aðalatriði málsins að við skulum reka hagkvæmasta sjávarútveg í heimi. Það er enginn á móti því að gera breytingar á þessu kerfi. Við sjálfstæðismenn tókum þátt í þeirri vinnu af heilum hug í sáttanefndinni að ná einhverri niðurstöðu sem gæti verið málefnaleg og málinu til framdráttar og komið á sátt meðal þjóðarinnar um þetta mikilvæga mál. En núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa sett þetta mál í uppnám enn og aftur og koma fram með svo hriplek frumvörp að ekki er hægt að notast við þau. Það er staðan.

Hv. þingmaður hrósaði strandveiðunum áðan og sagði að þær hefðu fært mikið líf í hafnirnar. Þá ætla ég að spyrja hv. þingmann: Hver varð verðþróunin eða hvernig fannst honum það að verðið á þorskkílói þegar strandveiðarnar hófust 1. maí (Forseti hringir.) fór úr 370 kr. í 270 kr. og hver er krafan í dag hjá þeim sjómönnum sem stunda þessar veiðar? Hún er sú að fá fleiri daga, fá (Forseti hringir.) lágmarksdagafjölda í mánuði eða fá kvóta. Þetta er nákvæmlega það sem við stöndum frammi fyrir; óhagkvæmar veiðar (Forseti hringir.) þar sem kröfurnar um það að fara í það kerfi sem við þekkjum eru komnar fram.