139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Við erum að ræða hér tvö frumvörp í einu og annað útilokar hitt. Hvort vill hv. þingmaður sjá verða að lögum?

Síðan er spurningin um hugtök. Hv. þingmaður notar mikið hugtökin þjóð, ríki og almenningur, allt í belg og biðu. Sér hann engan mun á þjóð og ríki eða almenningi og ríki?

Síðan spyr ég hann út í Evrópusambandið. Núna hyggst það taka upp góðar reglur Íslendinga í sjávarútvegsmálum um frjálst framsal, aukið framsal o.s.frv. til að auka arðsemi í greinum sínum og koma í veg fyrir brottkast, stöðva framsal og annað slíkt. Við erum hins vegar að fara hina leiðina. Hvernig fer þetta saman við það að við erum búin að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þurfum þá hugsanlega að taka upp reglur þess aftur? Það breytir yfir í okkar reglu, við förum frá því og breytum svo aftur í okkar reglu — eða hvernig lítur þetta út?