139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem mér fannst óvenjugóð, ég átti ekki von á að hún væri svona efnisrík eins og hún var á kafla þótt ég sé alls ekki sammála öllu sem þar kom fram.

Hv. þingmaður svaraði þeirri gagnrýni á meðferð málsins að einungis sjö dagar væru eftir af þinginu með því að hann teldi ekkert óeðlilegt að þingið tæki sér bara þann tíma sem það þyrfti til að afgreiða málið. Hann sagði að það væru reyndar ákveðin atriði sem þyrfti að klára, t.d. veiðigjaldið. Það kemur fram í frumvarpinu að veiðigjaldið þarf ekki að ákvarðast fyrr en 15. desember. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Er eitthvað fleira sem hann telur að gæti beðið — eða gæti ekki beðið? Ég er ekki sammála hv. þingmanni um þetta og sérstaklega ekki eftir að hafa hlustað á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í morgun því að hann virtist leggja allt kapp á að þetta mál yrði klárað.

Hv. þingmaður kom líka inn á athyglisvert atriði í ræðunni, öryggismál, þegar hann talaði um strandveiðar. Nú er stigið enn frekara skref og búinn til svokallaður strandveiðipottur fyrir þriggja tonna báta og minni. (Forseti hringir.) Þar deilum við hv. þingmaður áhyggjum, hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af þessum hlutum í þessu frumvarpi?