139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað eigum við margt eftir órætt og óunnið í þessum málum en tækifærið til að ræða það og vinna úr því er núna og okkur mun ekki gefast annað betra færi en þrír heilir mánuðir til að einbeita okkur að því að vinna að þessum málum á milli umræðna. Hluti af því að skapa þjóðarsátt er að hafa heildarsýn á skattlagningu auðlinda í landinu, um það er ég algerlega sammála hv. þingmanni.

Ég hef goldið varhuga við því hér að verið sé að draga menn í dilka eftir landshornum og krefja þá um uppskiptingu tekna. En ég hef alltaf litið svo á þó að ég sé þingmaður Reykvíkinga að hluti af þessari sátt sé að við eigum auðvitað að greiða eðlileg auðlindagjöld af þeim jarðhitaauðlindum sem við erum svo heppin að geta nýtt í þéttbýlinu.