139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rík ástæða er fyrir því að sjómenn um allt land og öll mið mótmæla þessum fyrirhuguðu hugmyndum ríkisstjórnarinnar og sjávarútvegsráðherra. Þeir telja mjög mikið vegið að hagsmunum sínum.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir talaði um að koma þyrfti þessu atvinnuskapandi frumvarpi í gegn. Mig langar að spyrja hana um hinn siðferðilega þátt málsins. Nú er verið að taka nokkur þúsund tonn á hverju ári og færa til strandveiðanna. Hvað finnst henni um þá útgerðarmenn lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Vestfjörðum sem fjöldamargir keyptu sér kvóta árið 2006 og 2007? Í mörgum tilfellum var blekið ekki þornað á pappírunum þegar þeir urðu fyrir skerðingunni haustið 2007. Þeir hafa setið uppi með skuldirnar en sjá nú möguleika á að fá þetta til baka og geta staðið betur undir skuldbindingum sínum og þá á að kippa því burtu og færa öðrum. Hvað finnst henni um að skilja menn eftir (Forseti hringir.) með skuldir einar fyrir hluti sem þeir keyptu? Þeir fóru að settum reglum (Forseti hringir.) sem ráðherrar úr þessari ríkisstjórn settu árið 1990.