139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi uppskiptingu strandveiða get ég alveg upplýst að ég hef haft þær hugmyndir að þegar fyrir lægi í upphafi strandveiða hve mikið magn af botnfiski ætti að setja í strandveiðarnar og hve margir bátar hefðu skráð sig inn í kerfið þá yrðu þessu deilt upp og menn fengju ákveðinn dagafjölda miðað við þá útdeilingu sem væri ekki framseljanleg. Þá held ég að eins miklu jafnræði verði náð og hægt er.

Varðandi hvernig eigi að túlka að lögskráður eigandi geti róið strandveiðibát sínum held ég að það sé eins einfalt og hægt er, aðeins lögskráður eigandi bátsins má róa á bátnum. Þannig var kerfið hugsað í upphafi, ekki þannig að fyrirtæki væru að kaupa marga báta og gera út á kerfið á þann hátt. Þetta var hugsað til að mæta þörf einstaklingsins til að skapa sér atvinnu.