139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér eiga sér stað nokkuð athyglisverðar umræður. Mig langar að staldra aðeins við það sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir svaraði í andsvari áðan. Ef ég hef ekki skilið það rétt óska ég eftir því að hún komi í andsvar og leiðrétti mig. Hún sagði í andsvari um þær breytingar sem hún vildi gera til að rétta af þann ójöfnuð sem er við úthlutun í strandveiðinni að henni hugnuðust þær, sem sagt að þegar fyrir lægi hversu mörg strandveiðileyfin væru og síðan yrði því deilt niður á svæðin, þ.e. ekki yrði gerður mismunur á milli svæða, þá fengju strandveiðibátarnir úthlutað dögum sem voru ekki framseljanlegir. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Skildi ég þetta ekki örugglega rétt, þ.e. að hugmyndir hennar væru með þessum hætti?

Í þessari umræðu um strandveiðarnar var líka umræða sem átti sér stað í fyrra. Misskiptingin á milli svæðanna er algjör, það er verið að færa milli svæða og það er klárlega verið að færa til að mynda frá heimasvæði hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, frá Vestfirðingum til Norðlendinga og svo koll af kolli. Þessu til stuðnings langar mig að fara yfir tölulegar staðreyndir. Það er búið að fara yfir það í ræðum hversu langan tíma það tók að færa strandveiðarnar á hverju svæði. Förum aðeins yfir þessi svæði, til að mynda eru þeir á svæði C sem er austur yfir með 86 leyfi en fá 231 tonn. Á svæði B eru 85 leyfi en þeir fá 355 tonn. Á svæði A eru 183 leyfi og þeir fá 499 tonn. Ef það væri samræmi á milli svæðis A og svæðis B ætti úthlutunin á svæði A ekki að vera 499 tonn heldur 720 tonn. Ég get að sumu leyti tekið undir þessa áherslu sem hv. þingmaður lagði á málið áðan. Ég hef talað fyrir því að þetta yrði gert svona. Það er kannski ekki langt á milli okkar þarna. Ég minni hins vegar á að í þessu frumvarpi stendur að ráðherrann hafi áfram alræðisvald um það hvernig hlutirnir eru gerðir.

Ég man líka eftir því að sumir hv. þingmenn, sem eru sérfræðingar í sjávarútvegsmálum að eigin mati, tóku einmitt undir þá gagnrýni í fyrra að þessi misskipting mætti ekki verða aftur. Samt er hún hér og þess vegna spyr ég líka hv. þingmann: Er þá ekki skynsamlegra að taka þetta vald frá ráðherranum? Að mati hv. þingmanns og að mínu mati líka hefur ráðherrann ekki staðið undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar um að jafna þetta á milli aðila. Það er alltaf verið að tala um jafnan aðgang aðila að auðlindinni og þar fram eftir götunum og það er mjög mikilvægt að þetta verði gert. Það er óþolandi mismunun að þetta sé gert svona. Þetta eru tölulegar staðreyndir sem við vorum líka með í fyrra. Þær blasa alveg við manni og hv. þingmaður hlýtur að hafa kynnt sér þær sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar en samt heldur ójöfnuðurinn áfram. Þess vegna hlýtur að vera eðlilegra að taka þetta vald inn í þingið af því að þetta er búið að gerast tvisvar.

Þá langar mig að koma aðeins betur inn í aðra þætti frumvarpsins. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem er nánast búinn að lofa mér að koma í andsvar (Gripið fram í.) um örfá atriði. (Sjútvrh.: Já, já, ef það er gáfulegt.) Ja, ef það er mjög gáfulegt, segir hæstv. ráðherra. Það er kannski enn mikilvægara að koma í andsvar ef það er ekki gáfulegt því að þá er um að gera að leiðrétta vitleysuna og misskilninginn í þeim sem talar. En mig langar að spyrja um eitt sem vakti sérstaklega athygli mína, það sem kemur fram um breytingar á 10. gr. núgildandi laga, þ.e. í 3. gr. frumvarpsins. Í lögunum er fjallað um úthlutun á byggðakvóta og þar stendur að það skuli gert til stuðnings byggðarlögum í samráði við Byggðastofnun. Síðan stendur í frumvarpinu að það sé til stuðnings byggðarlögum, en ekki talað um samráð við Byggðastofnun. Hvernig stendur á því að þetta er tekið út úr breytingunum og að ekki sé lengur talin ástæða til að hafa samráð við Byggðastofnun? (Gripið fram í.) Að mínu mati hefur Byggðastofnun og það góða starfsfólk sem þar vinnur einmitt mikla og góða yfirsýn yfir ástandið í byggðamálum úti á landsbyggðinni. Þess vegna spyr ég: Hvers vegna er þessi breyting? Sérstaklega í ljósi þess að við ræddum hér um daginn frumvarp sem kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum, afsakaðu orðbragðið, virðulegi forseti, þar sem verið var að fækka stjórnarmönnum í Byggðastofnun úr sjö í fimm og þá tók ég eftir því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hljóp á dyr rétt fyrir atkvæðagreiðsluna sem og hæstv. innanríkisráðherra. Tekur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þá undir þessa gagnrýni á Byggðastofnun með því að fella þetta út? Ég skil það ekki öðruvísi. Eða hver er ástæðan?

Hér er talað í einhverjum fögrum texta og síðan er alltaf endað á að ráðherra skuli setja reglugerð. Ég er dálítið hugsi yfir þessum nýja strandveiðipotti. Þar á að búa til strandveiðipott fyrir báta undir þremur tonnum og ég er ekki viss um það, virðulegi forseti, að mjög margir hv. þingmenn geri sér grein fyrir því hvað þriggja brúttótonna bátur er stór í raun og veru. Það er ekki talað um rúmlestir heldur brúttótonn. Það eru mjög litlir bátar. Ég hræðist mjög mikið að þá verði framleitt áfram inn í þessa stærð af bátum. Það er ekki talað um það í greinargerðum eða neins staðar hvort spornað verður við því að settar verði í þetta mjög stórar vélar og þar fram eftir götunum þannig að þetta verður að ræða, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti reyndar á, út frá öryggismálum sjómanna. Það er vísvitandi verið að búa til pott til að framleiða minni skip og það er akkúrat það sem við þurfum ekki, sérstaklega út af öryggismálum og líka út af því að þó að þeir sem eru að róa í strandveiðunum hafi fullan vilja til að ganga vel um hráefnið eru aðstæðurnar um borð í mörgum þessara báta þannig að þeir hafa hreinlega ekki tök á því, og enn síður ef menn fara að minnka bátana enn frekar. Það þýðir í heildina tap fyrir þjóðarbúið í heild sinni.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað eru margir bátar í strandveiðikerfinu í dag undir þremur tonnum?

Síðar kemur fram að það eigi að setja hluta af þessum 2.400 tonnum inn í þennan pott sem kemur til viðbótar núna. Hvað hyggst ráðherrann setja mikinn hluta af aukningunni inn í þennan pott?

Þetta eru einfaldar spurningar sem á ekki að vera erfitt að svara því að menn hljóta að hafa skoðað þetta sérstaklega þegar þeir ákváðu þetta.

Ég tel líka mjög mikilvægt að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd skoði hvort menn þurfi ekki að setja líka hámarksvélarstærð í þessa báta. Við þekkjum söguna og það þarf ekki að skrifa hana neitt aftur. Við þekkjum hana. Hvernig var það þegar dagakerfið var við lýði? Það var fyrst dagakerfi og það sprakk náttúrlega allt í loft upp. Þá var búið til klukkutímakerfi. Hvernig var reyndin? Við skulum fara aðeins yfir það, það er dálítið mikilvægt að rifja það upp. Þeir aðilar sem voru í kerfinu sjálfu börðust harðast fyrir því í restina að setja það af. Það voru þeir sem börðust fyrir því, trillukarlarnir sjálfir, sem sáu hvað var að gerast. Það var verið að framleiða fleiri og fleiri báta inn í kerfið. Þá var kerfið lagt niður og settar miklu meiri aflaheimildir inn í það en til var stofnað. Hvað sögðu menn þá? Þá sögðu menn: Pólitíkin mun að sjálfsögðu bregðast við og við fáum aukningu á aflaheimildum. Sú varð raunin.

Síðan gerðist það að yfir 90% af þeim seldu nánast fyrstu vikuna eftir að þeir gátu gert það. Það er mjög athyglisvert eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson benti á hér áðan, það þarf nefnilega að skoða hvaða nýliðar eru í strandveiðunum. Það eru töluvert margir þeirra sem þegar hafa selt sig út úr greininni og áttu bátana eftir. Ég man þegar þetta var sett og því hafnað að það yrði að minnsta kosti gert fyrstu árin því að eflaust hefði verið erfitt að framfylgja því áfram, menn gátu nefnilega farið á svig við það, stofnað félög og selt bátana, að þeir sem voru búnir að selja frá sér varanlegar heimildir gætu farið beint inn í strandveiðikerfið. Ríkisstjórnarmeirihlutinn á þingi hafnaði því að taka að minnsta kosti eitt ár af því. (LRM: Stæðist það stjórnarskrá?) Já, það hefur eflaust staðist stjórnarskrá. Því var bara hafnað vegna þess að var ekki framkvæmanlegt til lengri tíma og það er sannarlega rétt.

Það er dálítið athyglisvert að hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar skuli garga fram í, eða kalla fram í og segja: Stenst það stjórnarskrá? Ég held að hún ætti frekar að velta fyrir sér umsögn fjárlagaskrifstofunnar í fjármálaráðuneytinu sem hv. þm. Helgi Hjörvar sá sérstaka ástæðu til að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir. Ég held að menn verði að skoða þetta frekar.

Mig langar líka að rifja upp að þegar menn töluðu hér um strandveiðarnar sögðu margir þingmenn Vinstri grænna: Það er svo mikið óréttlæti í sambandi við byggðapottana. Þess vegna eigum við að færa þá frekar inn í strandveiðar. Það voru ákveðin rök fyrir því, þá geta allir notið en ekki einstakir með sértækum reglum. En hver varð síðan raunin? Við skulum rifja það upp. Fyrsta árið sem strandveiðarnar voru var nefnilega helmingurinn af þorskkvótanum sem fór inn í strandveiðarnar tekinn út úr byggðakvótanum. Svo var það að sjálfsögðu gefið og ég benti á það í ræðu að auðvitað mundi það breytast næst. Svo var það gert. Ég tek það fram sérstaklega í þessari umræðu að þegar dagakerfið var lagt niður á sínum tíma var ég mjög ósáttur við það. Ég tel að það gæti skapað ákveðna sátt að menn hefðu einhvers konar aðgang inn í þetta, en við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að það kostar að ef við tökum frá einum og færum til annars erum við að minnka vinnuna hjá honum. Það er alveg klárt.

Ég vil nota þennan stutta tíma sem ég á eftir til að koma aðeins inn á það sem var umræða um hér áðan og ég er dálítið hugsi yfir. Ég viðurkenni að það snýr að því hvernig á að útdeila auðlindagjaldinu. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir: Jú, þetta er tekið frá sjávarútveginum. Hann vill útdeila því með einhverjum hætti sem tryggir að helmingurinn af hækkuninni fari aftur til sveitarfélaganna. En ég er hugsi yfir því og spyr: Þurfum við ekki að ræða þetta á þeim nótum? Ég tel að við eigum eftir fullt af umræðu um þessi mál, hvernig við ætlum að taka auðlindarentuna því að það næst aldrei sátt í þjóðfélaginu milli þéttbýlisins og landsbyggðarinnar um það hvernig svona gjöld eru tekin nema allir sitji við sama borð, þ.e. að það sé tekið auðlindagjald af öllum þeim greinum sem nýta auðlindir landsins. Ég get hins vegar tekið undir það með hv. þm. Helga Hjörvar að það þurfa ekki að gilda sömu reiknireglur um allar greinarnar. Þær geta verið mismunandi og það er það sem við þurfum að ræða og það sem við verðum að skoða. Eins og þetta lítur út fyrir mér í fljótu bragði erum við að ná þjóðarsátt um fiskveiðistjórnarkerfið eða stefnum að því. En hvernig ætlum við að ná þjóðarsátt ef við ætlum síðan að skipta þjóðinni upp í einhver sveitarfélög vítt og breitt um landið? Það koma mjög efnislega sterk rök fyrir því einmitt í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að það er kannski ekki alveg réttlæti í því að sum byggðarlög fá en ekki önnur. Það er umræða sem við verðum að taka án þess að vera í einhverjum upphrópunum. Við verðum að taka hana markvisst þannig að við komumst að einhverri skynsamlegri niðurstöðu.

En þá er aðalatriðið eins og ég sagði áðan að allir verða að greiða auðlindagjald af öllum auðlindum. Ég tel að það muni gerast þannig að ef sum sjávarútvegsplássin fá miklu meiri tekjur af auðlindagjaldinu en önnur, af því að við erum með innbyggt kerfi sem heitir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, muni þessi úthlutun verða rétt þar af að einhverju eða jafnvel öllu leyti. Það er það sem ég geri mér ekki grein fyrir. Þá mun Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sem hefur mjög flóknar reglur til að úthluta eftir, hugsanlega úthluta minna til þessara byggðarlaga. Þess vegna tel ég mikilvægt fyrir okkur að ræða og skoða hvernig þetta er gert. Öðruvísi náum við ekki þjóðarsáttinni og þá getum við ekki hætt að ræða um það af hverju sjávarútvegurinn eigi að borga gjald Reykjavíkur en ekki Reykvíkingar að borga gjald af heita vatninu til sjávarbyggðanna. Við erum nú einu sinni ein þjóð og það er grundvallaratriði.

Mér finnst röksemdafærslan í þessu máli vafasöm eins og til dæmis hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann segir að það verði að tryggja stöðu sjávarbyggðanna. Gott og vel, við getum verið sammála um það en af hverju þarf þá að skattleggja þær sérstaklega umfram allt annað? Það er sú umræða sem við þurfum að taka enn frekar. Við erum ein þjóð, erum með einn ríkissjóð og einn ríkiskassa þannig að mér finnst mikilvægt að við ræðum þetta af skynsemi þó að vitanlega muni þetta koma sér mjög vel fyrir það sveitarfélag sem ég bý í. Við megum hins vegar ekki horfa svo þröngt á þetta, heldur verðum við að reyna að hafa það markmið að ef við ætlum að reyna að ná sátt um auðlindanýtinguna, auðlindarentuna, verðum við að gera það þannig að það sé ein þjóð í þessu landi en ekki skipta því niður á fjölda sveitarfélaganna.