139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hans og athyglisvert að heyra hvernig þingmaðurinn fór yfir málið, ekki síst í ljósi þekkingar hans og reynslu af atvinnugreininni. Mér fannst athyglisvert þegar þingmaðurinn velti upp öryggismálum varðandi minni bátana. Það er eitthvað sem ég viðurkenni að hafa ekki alveg hugsað út í en er réttlætanlegt og réttmætt að huga að.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann um þá þróun á verði sem nefnt var fyrr í umræðunni, þ.e. hvernig verð á markaði breyttist þegar aflinn af strandveiðibátunum kom inn á markaðinn. Hvort þingmaðurinn viti til þess að lagt hafi verið mat á áhrifin eða lagt mat á hversu háar upphæðir er um að ræða. Þetta kann að vera flókin spurning svona óundirbúið, en ég held að áhrifin hljóti að hafa verið einhver.