139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir að það er áhugavert ef þetta kerfi á að vera áfram að skoða það út frá þessu dagasjónarmiði.

Það sem mig langar í seinna andsvari að velta upp er um nýtingarsamninga, sem er vissulega tekið á í hinu stærra frumvarpi sem kallað er, en hins vegar er ljóst að litla frumvarpið, eða það frumvarp sem við tölum um nú, mál nr. 826, er óneitanlega mjög tengt hinu málinu og ekki síst ef maður horfir á 5. og 6. gr. sem lúta að veiðigjaldinu og útdeilingu þess.

Nú erum við með samninga í orkugeiranum sem eru 65 ára nýtingarsamningar í dag. Talað er um að breyta þeim og fara með þá niður í 30–40 ár, ef umræðan er færð hingað inn í salinn. Ég held reyndar að það þurfi að skoða mjög vandlega, hvort það er raunhæft. Eru rök fyrir því að láta eitthvað annað gilda um þessa auðlind en aðrar?