139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari skoðun hv. þingmanns, sem er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Það er mjög skýrt að gallinn við sóknarmörkin, alveg sama hver þau eru, eru áhrifin á öryggi sjómanna, það er ákveðinn galli og fram hjá honum verður ekki litið. Við höfum rætt þetta og horfum á kosti og galla á hvoru sem er. Því fagna ég sérstaklega þessari yfirlýsingu hv. þingmanns því ég get að sumu leyti tekið undir það sem hún segir, það er mjög stutt á milli okkar þarna.

Þetta gerir tvennt. Í fyrsta lagi, eins og hv. þingmaður benti á, jafnar þetta niður óánægjuna og ágreininginn milli svæðanna. Í öðru lagi mun það veita frekara öryggi ef menn eru ekki að keppa og róa við mjög erfiðar aðstæður og skilyrði til að reyna að nýta þessa örfáu daga. Ég tel því þessa hugmynd sem hv. þingmaður reifaði hér, og ég hef þá skilið rétt ræðu hennar áðan, mikla framför í breytingum á strandveiðikerfinu.