139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að hægt væri að gera þetta svona, menn fengju úthlutað dögum sem þeir gætu notað í viðkomandi mánuði. Það yrði að vera alveg skýrt frá upphafi og við erum sammála því að framsal yrði ekki heimilað í strandveiðikerfinu, það yrði bara bannað að framselja mætti dagana.

En aðalatriðið er að menn mega ekki búa til væntingar en það er það sem gerist núna. Við þekkjum þetta, menn áttu smábát og voru búnir að selja varanlega kvótann. Matið á honum var kannski 1 milljón. Svo verða breytingar á strandveiðum og matið fer úr 1 milljón í 7–8 milljónir. Þetta verðum við að reyna að passa og þess vegna er svo mikilvægt að senda skýr skilaboð því að fullt af einstaklingum hafa treyst á að kaupa sér bát, fara á strandveiðar og reynt að skapa sér atvinnu og tekjur og hafa veðsett húsin sín. Við þurfum að passa að þessar ljótu hliðar komi ekki upp, vegna þess að menn hafa væntingar um að veiðarnar verði alltaf auknar og nú þegar á öðru ári strandveiða erum við að stíga fyrsta skrefið og bæta 50% við. Menn segja þá: (Forseti hringir.) Auðvitað munu þeir gera þetta áfram af því þetta er vinsælt í pólitískum atkvæðaveiðum. Þeir munu bara bæta við aftur. Og þá koma bátarnir til með (Forseti hringir.) að hækka áfram.