139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérstakt að mörgu leyti að ræða sjávarútvegsmálin hér þegar litið er til í hvaða umhverfi þau hafa verið unnin og síðar lögð fram. Við ræðum hér mál nr. 826 sem við höfum gjarnan kallað okkar á milli minna málið og skilgreint frá máli nr. 827 sem er þá væntanlega hið stærra. Hins vegar er það nú þannig að minna frumvarpið er býsna stórt í sniðum og lagðar til miklar breytingar. Í því eru atriði sem óhætt er að segja að örugglega megi ná einhvers konar sátt um með smá tilfæringum en um önnur atriði klárlega ekki. Ég ætla að geyma mér umfjöllun um hverja grein í frumvarpinu og fer yfir þær síðar.

Fyrir mörgum mánuðum lauk vinnu svokallaðrar sáttanefndar um sjávarútvegsmál sem sá er hér stendur sat í ásamt fjölda fólks, fulltrúum stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila í sjávarútvegi, þar á meðal verkalýðssamtaka og sveitarfélaga o.s.frv. Segja má að allir helstu aðilar er tengjast greininni með einhverjum hætti hafi komið að þeirri vinnu. Sú vinna stóð í rúmt ár og mikilli skýrslu var skilað til hæstv. ráðherra sem tók að sjálfsögðu við henni en síðan hefur mjög lítið til þeirra tillagna sem þar voru settar fram spurst. Ef hugmyndafræðin á bak við frumvörpin sem hér eru komin á dagskrá þingsins á að byggja á vinnu sáttanefndarinnar þá verður að segjast eins og er að ósköp lítið í frumvörpunum má tengja við hana. Það er kannski helst 1. gr. í hinu frumvarpinu þar sem rætt er um að festa og skýra eignarhald á auðlindinni, ég get tekið undir hana. Ein af meginniðurstöðum nefndarinnar var einmitt að tryggja og skýra hver væri í raun eigandi auðlindarinnar.

Að sjálfsögðu hafa margir aðilar sótt í þessa auðlind í gegnum árin og skapað sér mögulega ákveðinn rétt. Því var einnig lagt til að fara samningaleið til að höggva á þann meinta rétt og jafnframt lagt til að greitt yrði hóflegt gjald fyrir afnot af auðlindinni. Að mínu viti er hér ekki farin sú leið. Eftir að hafa farið yfir málið sýnist mér að farið sé býsna langt frá þeim tillögum.

Komið hefur fram að hinir svokölluðu hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Sjómannasambandið og Farmanna- og fiskimannasambandið, hafa allir lýst yfir andstöðu sinni við þau mál sem hér eru lögð fram. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir stjórnarflokkana að viðbrögðin skuli vera þessi. Það er því sérkennilegt að hlusta á umræðu um að verið sé að koma til móts við sjómenn eða bæta hag þeirra eða eitthvað slíkt með frumvarpinu. Það er náttúrlega alls ekki það sem verið er að gera.

Ég hef einnig við farið í gegnum mál nr. 826 og borið saman við þær ályktanir sem voru nýlega gerðar á flokksþingi framsóknarmanna. Þar er nú ósköp lítið, ef nokkuð, sem er hægt að tengja við, nema ef væri 2. gr. að hluta til og 4. gr.

Breytingarnar sem lagðar eru til í máli nr. 826 eru vitanlega gerðar til að festa í sessi strandveiðarnar og þær hafa tekið töluverðan tíma af umræðum í þinginu og eðlilega sýnist sitt hverjum þegar slíkar breytingar eru gerðar. Það er örugglega hægt að tína til dæmi um að þetta hafi verið einhvers staðar til góðs að einhverju leyti. Hins vegar er algjörlega óþolandi, að mínu viti, að þetta kerfi eða eitthvert annað sé notað til að færa réttindi frá einhverju fólki til annarra eða þá að verðlauna þá sem hafa komið kannski hvað mestu óorði á sjávarútveginn, þá sem seldu sig út úr greininni fyrir mikla fjármuni og eru nú komnir inn í hana aftur í gegnum strandveiðarnar og vilja jafnvel fá kvóta aftur. Það er vitanlega alveg óþolandi staða sem við höfum þar.

Svo blandast inn í umræðuna að við erum gjarnan að tala um ástand sem ríkti fyrir 15–17 árum þegar framsalið stóð kannski sem hæst og árin þar á eftir þar sem menn fóru úr greininni með miklar upphæðir. Þetta er í rauninni ekki til staðar lengur, leyfi ég mér að fullyrða. Kannski er hægt að segja að þetta sé möguleiki en ég held að mesti bragurinn sé farinn af þessu. Níutíu og eitthvað prósent af þeim sem eru í greininni í dag hafa keypt sig inn í hana, keypt aflaheimildir. Auðvitað er svo sem ekkert sem bannar þeim að selja sig út úr henni en í dag er enginn til að kaupa, held ég, þannig er ástandið í sjávarútveginum.

Það sem við þurfum að gera og er að sjálfsögðu verkefni okkar á Alþingi er að skapa sjávarútveginum rekstrarskilyrði þar sem greinin getur vaxið og skilað arði til samfélagsins og haldið uppi atvinnu. Við sáum nýlega frumkynningu, og verður betur kynnt í haust, á rannsókn eða skýrslu sem heitir Sjávarklasinn þar sem kemur fram að umsýslan í kringum sjávarútveginn er í það minnsta 300 milljarðar kr. Það gleymist nefnilega oft í umræðum um sjávarútvegsmálin að það eru ekki bara sjómenn eða fiskvinnslufólk sem hafa atvinnu af greininni heldur einnig vélsmiðir, rafvirkjar, smiðir, verslunarfólk og flutningamenn og svo framvegis. Áhrifin eru mjög víða.

Það sem er erfitt í dag er að engin framtíðarsýn er varðandi greinina og þess vegna hafa fyrirtæki í henni eða í tengslum við hana forðast að fara í fjárfestingar, í tæknigreinunum hafa menn átt í erfiðleikum með að selja afurðir sínar, við þekkjum að lítil eftirspurn er eftir viðhaldi á skipum, og þess háttar. Mikilvægt er því að við búum til framtíðarsýn. Ég held að sú framtíðarsýn eigi í grunninn að byggjast á þeim þremur atriðum sem ég nefndi áðan og voru niðurstaða sáttanefndarinnar. Það getur hins vegar ekki talist framtíðarsýn í því að bjóða einhvers konar nýtingarsamninga til 15 ára, endurskoðaða eftir átta ár, og kannski, mögulega, hugsanlega sé um framlengingu að ræða.

Mér finnst þær heldur ekki mjög björgulegar tillögurnar í 5. gr. frumvarpsins um að innheimta veiðigjaldið með þeim hætti sem þar er sagt. Ég held að miklu meira tillit þurfi að taka til stöðu greinarinnar á hverjum tíma en setja þetta fram svona.

Ef við förum aðeins í gegnum einstakar greinar frumvarpsins er í 1. gr. fjallað um breytingu á stærð bátanna. Einhver veginn læðist að manni sá grunur að kannski sé verið að reyna að fara með strandveiðarnar á þann stað sem hugmyndin snerist um í upphafi, að þetta væru litlir bátar en ekki verið að stunda stórkostlega atvinnusjómennsku, eins og við getum orðað það, því í dag vitum við að gríðarlega öflug skip eru í strandveiðunum og sigla jafnvel út í veðrum sem minni bátarnir geta ekki farið út í, og svo framvegis. Ég hef grun um að hér sé verið að leiðrétta ákveðna hluti. Við þetta vakna hins vegar spurningar sem þingmenn hafa velt upp eins og varðandi öryggissjónarmið og fleira.

Síðan er ráðherra vitanlega eins og í flestum öðrum greinum veitt ákveðin heimild til að skipta aflanum í þessa flokka.

Í 2. gr. er fjallað um bæturnar og hvernig er fært í þær. Ég held að það sé í raun sanngirnismál að allir leggi eitthvað af mörkum í bótapottana meðan þeir eru við lýði. Svo kann að vera að útfærsluna þurfi eitthvað að endurskoða frá því sem þarna er sagt og ég geri að sjálfsögðu enga athugasemd við það en mikilvægt er að allir leggi sitt af mörkum.

Í 3. gr. er í raun talað um byggðakvótann eða hvernig úthlutað er í byggðarlögunum af þeim bótum sem þangað koma. Þótt ég hafi ákveðinn skilning á þeim tillögum verð ég að segja að meiri vandamál en lausnir hafa fylgt því í sveitarfélögunum þegar kemur að því að úthluta byggðakvótanum. Ég hefði haldið að það væri jafnvel hreinlegra að hafa úthlutunina á hendi ríkisins. Það kann að vera að hægt sé að finna leiðir sem einhverjum sveitarfélögum kunna að þykja góðar og því vil ég ekki slá þetta dautt einn, tveir og þrír en þetta þarf að skoða mjög vandlega þegar lengra líður á umræðuna.

Í 4. gr. er talað um tilfærslurnar og þær eru eitt af því sem rætt var um í sáttanefndinni og dæmi um að þyrfti að breyta. Ég held hins vegar að mikilvægt sé að breytingar sem gerðar verða á þessu eigi sér ekki stað fyrr en á næsta fiskveiðiári, ekki sé hægt að láta þær gilda á þessu fiskveiðiári, heldur í fyrsta lagi á næsta ári eða jafnvel síðar.

Ég minntist á veiðigjaldið áðan og ég tel að verið sé að hækka það allt of mikið í þessari grein, fyrir utan að ég er ekki sáttur við hvernig það er reiknað.

Varðandi 6. gr. þá er mikil greinargerð frá fjármálaráðuneytinu varðandi útdeilinguna. Ég er í grunninn sammála því að byggðarlögin sem greiða auðlindagjaldið eða veiðigjaldið eigi að fá sérstaka meðferð varðandi hvert gjaldið eigi að vera, vegna þess að það er fyrst og fremst skattur, landsbyggðarskattur. Eflaust má tína til einhver rök um að dæmi séu til um að þetta sé á einhvern hátt til staðar í dag í samfélaginu. Mér finnst allt í lagi að nefna það að stjórnsýslan á Íslandi er öll í Reykjavík. Landsbyggðin nýtur nú lítið góðs af því ef einhvers konar verðmæti verða til í henni. Hægt er að rökstyðja þetta með því meðal annars.

Í 7. gr. og þeim stafliðum sem þar fylgja eru ráðherra veittar býsna miklar heimildir til að bæta í strandveiðarnar. Ég verð að segja að mér líst ekkert sérstaklega vel á þær tölur og hvernig á að skipta því ef horft er til ársins 2012 og 2013. Að mínu viti er ekki hægt að auka aflaheimildir án þess að bæta þeim það upp, í það minnsta að einhverju leyti, sem heimildir hafa verið skertar mjög mikið hjá undanfarin ár. Loksins þegar við sjáum fram á aukningu er ekki hægt að láta þá sitja eftir með fjárfestingar og skuldir sem þeir hafa sannarlega keypt eða notað peningana sannarlega í að kaupa aflaheimildir eða til að setja inn í fyrirtæki sitt til að styrkja það og efla. Ég sé ekki sanngirni í því að þeir fái ekki einhverjar bætur út af því.

Við þekkjum dæmi af fyrirtækjum þar sem spilað var inn á lagarammann sem í gildi var, þar sem fyrirtæki voru keypt eða aflaheimildir keyptar. Svo var skerðing komin á stuttu seinna og eftir sátu fyrirtækin með skuldirnar. Þetta var allt gert innan þess lagaramma sem Alþingi hafði sett og skapað. Ég er því ósammála því sem hér hefur komið fram að ekki eigi að horfa til baka þegar loksins kemur að því að við getum aukið (Forseti hringir.) aflaheimildir.