139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

nú stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:20]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gerði það að inngangi að máli sínu að vísa til viðræðunefndarinnar sem stundum hefur verið kölluð sáttanefndin og tók til starfa í aðdraganda þess að þau frumvörp sem verða til umræðu í dag og næstu daga hafa verið lögð fram. Hann vísaði til þess að viðræðunefndin hefði komist að niðurstöðu um svokallaða samningsleið sem hann teldi eðlilegt að væri höfð til hliðsjónar í þessu máli og telur, hafi ég skilið hann rétt, að ekki sé höfð til hliðsjónar.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Hver er samningsleiðin að hans mati? Hvað felur sú leið í sér? Og sömuleiðis, vegna þess að hann taldi ásættanlegt að taka hóflegt gjald fyrir nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar en sættir sig þó ekki við þær 16 kr. sem lagðar eru til á hvert kíló í (Forseti hringir.) frumvarpinu, hvað telur hann hóflegt gjald?