139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég ekki kalla þessa nefnd viðræðunefnd. Þessari nefnd var falið það hlutverk með erindisbréfi að koma með tillögu er gæti leitt til sátta um sjávarútvegsmál. Það gerði nefndin ágætlega að mínu viti.

Varðandi hvað geti verið ásættanlegt auðlindagjald geri ég ráð fyrir að hv. þingmaður hafi kynnt sér vandlega flokksþingsályktun Framsóknarflokksins þar sem rætt er um að veiðigjald taki mið af getu greinarinnar. Við höfum ekki fengið eitt aðalplaggið sem þarf að fylgja þeim frumvörpum sem verið er að fjalla um, sem er m.a. hagfræðileg greining á því hvað greinin þolir. Ég treysti mér því ekki til að segja hvað sé hóflegt veiðigjald án þess að vita hvað þessi mikilvæga grein okkar ber þegar kemur að því að leggja á hana meiri álögur. Það getur vel verið að hún þoli jafnvel minna veiðigjald en nú er. Ég hugsa að svo sé ekki, ég held að við getum eitthvað bætt (Forseti hringir.) í.