139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef það kemur til aflaaukningar á þessu fiskveiðiári til flestra þeirra útgerða sem eru — nú verður maður vanda orðalagið — alvöruútgerðir þá eru því miður flestir held ég búnir að gera ákveðin plön og aðlaga sig að þeim raunveruleika sem við búum við. Aukning á þessu ári held ég að muni ekki gagnast mjög mörgum. Hins vegar er mjög ánægjulegt að heyra hæstv. ráðherra segja að það verði hugsanlega mögulegt að auka aflaheimildir meira en akkúrat er kveðið á um í þessum frumvörpum.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Ef svigrúm verður til aukningar þarf í það minnsta að bæta þeim það upp að hluta til sem hafa verið skertir að einhverju leyti. Ég geri mér grein fyrir því að óvíst er að það náist að fullu en þeir eiga skilyrðislaust að fá mjög góðan skerf ef ekki obbann af þeirri aukningu sem verður.