139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af orðaskiptum hv. þingmanns og hæstv. ráðherra áðan, það var talað um að í frumvörpunum fælist nokkuð sem mundi auka fiskigengd í sjónum en það er ekki þannig. Ef það er svigrúm til að bæta við aflaheimildir skiptir engu máli hvort þessi frumvörp eru samþykkt eða ekki. Yfirlýsing hæstv. sjávarútvegsráðherra var mjög sérkennileg þegar hann sagði að það væri hægt að auka við kvótann ef frumvörpin yrðu samþykkt. Þetta var náttúrlega algjörlega innantómt rugl.

Mig langar að þakka honum fyrir ágæta ræðu og spyrja hann nokkurra spurninga, í fyrsta lagi um 6. gr. frumvarpsins um hvernig eigi að skipta þessu gjaldi á milli sveitarfélaganna. Það er lagt til að þetta fari í sjö landshluta og síðan átta og ég spyr hann út frá því sem er talað um að fiskur sem er unninn úti á sjó hafi verið dreginn frá aflaverðmæti viðkomandi landshluta, þ.e. að ekki er reiknað með frystitogurunum inn í úthlutunina. Einhvern veginn koma upp í huga mér strax vinir okkar og félagar á Skagaströnd. Hver er skoðun hv. þingmanns á þessu? Finnst honum réttlætanlegt að útiloka sveitarfélögin frá því að eiga hlutdeild þó að (Forseti hringir.) það sé unninn fiskur á frystitogurum?