139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það væri sérkennilegt ef þessir dagar yrðu framseljanlegir, en það kann að vera að það finnist einhver rök fyrir því. Ég segi hins vegar að mér hugnast ekki illa sú hugmyndafræði sem hér hefur verið rætt um, að breyta þessu í daga. Menn geta þá ákveðið innan tímabilsins hvenær þeir sækja sjóinn í stað þess að keppast við og sprengja sig út í alls konar veðrum og, já, stofna öryggi sínu í hættu til að ná þeim afla sem þeir mögulega geta. Við höfum líka séð að það verður til ósamræmi milli þeirra sem eiga stærri og öflugri báta sem geta farið út í nánast hvaða veðri sem er og þeirra sem eru á minni bátunum. Rekur mig þá minni til samtals sem ég átti á Arnarstapa þar sem maður benti út á sjóinn og sagði við mig: Sjáðu, þarna fer þessi, búinn að selja frá sér kvótann. Nú er hann kominn með stóran og fínan bát. Hann getur róið, ég verð að bíða hér vegna þess að minn bátur kemst ekki út í þessu veðri.