139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef lýst því yfir að það kæmi vel til greina að taka það mál sem við erum með hér, 826. mál, fara með það inn í nefnd og gera þær breytingar sem gera þyrfti. Það hefur hins vegar ekki verið vilji stjórnarflokkanna. Stjórnarflokkarnir vilja fá bæði málin inn, þetta og stærra málið, 827. mál. Við það verður ekki unað að mínu viti, ekki í það minnsta í því formi sem það er lagt hér fram. Þessi mál tengjast vissulega með ákveðnum hætti.

Ef við erum búin að sætta okkur við að strandveiðikerfið sé komið til að vera, a.m.k. meðan þessi ríkisstjórn er við völd, gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á því og þá er vissulega hægt að nota þetta frumvarp til þess.

Ég sagði líka, frú forseti, um byggðakvótann að ef vilji sveitarfélaganna væri sá að fá þennan kaleik með þessum hætti til sín finnst mér ekki að við eigum að vera á móti því. Ég geri hins vegar alvarlegar athugasemdir við það hvernig ráðherranum eru fengnar hér (Forseti hringir.) ákveðnar heimildir til að úthluta kvóta og slíkt. Þetta er ekki alveg eins einfalt og hv. þingmaður lýsti.