139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla að ræða um fundarstjórn forseta. Í morgun lagði sá forseti sem sat þá í forsæti í þinginu fram tillögu um að það yrði fundað fram eftir kvöldi og jafnvel inn í nóttina. Við mótmæltum því í minni hlutanum hér á Alþingi og töldum að þetta ætti að vera efnisrík umræða að degi til. Nú er svo komið að einungis tveir stjórnarliðar eru við umræðuna og af 21 á mælendaskrá um þetta grundvallarmál er einn stjórnarliði sem ætlar að tjá sig um málið.

Ég spyr hæstv. forseta hvort þeir stjórnarliðar sem greiddu atkvæði með því að hafa þetta mikilvæga mál hér til umræðu í kvöld séu ekki örugglega í húsinu og að fylgjast með umræðunni. Það var hvatt mjög til þess að við ræddum þetta hér fram eftir kvöldi og þess vegna er eðlilegt að þeir sem samþykktu það verði við umræðuna en láti ekki stjórnarandstöðuna eina (Forseti hringir.) tala um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og þær breytingar sem á að gera. Mér sýnist (Forseti hringir.) að stjórnarliðar ætli gjörsamlega að sitja hjá í kvöld (Forseti hringir.) í þessari umræðu.